Hátíðir í Hrísey 2024

 

Að venju munum við halda Hríseyjarhátíð aðra helgina í júlí 12. – 13. júlí en hátíðin hefur verið haldin síðan 1997 og aðeins fallið niður einu sinni vegna Covid. Dagskráin er með svipuðu sniði, óvissuferðir á föstudeginum, skemmtun á sviði, leiktæki, ratleikur, kvöldvaka og fleira. Í ár munum við fá til okkar góða gesti eins og venjulega og má nefna Herbert Guðmundsson og Húlladúlluna.

Hinsegin dagar í Hrísey voru haldnir í fyrsta sinn á síðasta ári og voru það foreldrar hinsegin barna í eyjunni sem stóðu fyrir þeim. Ákveðið hefur verið vegna góðrar þátttöku og almennrar ánægju með hátíðina að hún verði árleg. Að þessu sinni verða Hinsegin dagar um Jónsmessuna eða 21. – 22. júní. Ástæðan er sú að mjög mikið er um að vera allar helgar í júlí og ætlum við því að prófa þessa helgi. Þetta verður því Hinsegin sumarsólstöðuhátíð 😊

Danshátíðin verður svo á sínum stað í 16. – 17. ágúst en þar kemur saman dansáhugafólk og slettir úr klaufunum við undirleik þekktra hljómsveita. Hátíðin er nú haldin í fimmta sinn og hefur hún stækkað og þróast mikið. Mikið er um að sama fólkið komi og njóti þess að dansa í Hrísey því ekki eru margir staðir í dag þar sem hægt er að njóta þess að dansa þessa gömlu góðu dansa, línudans, Sænskt bugg, twist og rokk.

Ferðamálafélag Hríseyjar heldur utan um þessar hátíðir en það eru einstaklingar sem standa á bak við að framkvæma þær.

Sjáumst í Hrísey í sumar. Fylgist með dagskránni á hrisey.is og samfélagsmiðlum